03. janúar. 2008 09:45
Heitavatnslaust er á Akranesi í dag og verður til klukkan 18. Þar sem að nýja hringtorgið, sem verið er að byggja á Þjóðbraut skammt frá Bónushúsinu, liggur ofan á stofnlögninni í bæinn, hefur þurft að leggja nýja stofnlögn fram hjá hringtorginu. Þessi nýja stofnlögn verður tengd í dag. Hún er 40 cm í þvermál og þykir ekkert veita af þessum tíma fyrir starfsmenn Orkuveitunnar til tengingar. Ekki er samt loku skotið fyrir að verkið gæti tekið skemmri tíma, að sögn Eiríks Hjálmarssonar upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar.