07. janúar. 2008 01:02
Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, hlaut á sunnudag titilinn íþróttamaður Akraness árið 2007. Í öðru sæti varð Hanna María Guðbjartsdóttir badmintonkona og knattspyrnukappinn Bjarni Guðjónsson hafnaði í því þriðja.
Eftirtaldir íþróttamenn voru tilnefndir af sínum félögum til kjörsins:
Badmintonmaður ársins 2007: Hanna María Guðbjartsdóttir
Fimleikamaður ársins 2007: Lóa Guðrún Gísladóttir
Hestaíþróttamaður ársins 2007: Svandís Lilja Stefánsdóttir
Íþróttamaður Þjóts árið 2007: Andri Jónsson
Kylfingur ársins 2007: Valdís Þóra Jónsdóttir
Karatemaður ársins 2007: Aðalheiður Rósa Harðardóttir
Keilumaður ársins 2007: Skúli Freyr Sigurðsson
Knattspyrnumaður ársins 2007: Bjarni Guðjónsson
Körfuknattleiksmaður ársins 2007: Hörður Nikulásson
Skotmaður ársins 2007: Jóhanna Heiður Gestsdóttir
Sundmaður ársins 2007: Rakel Gunnlaugsdóttir
Íþróttamaður USK árið 2007: Viðar Freyr Viðarsson
“Ég var ekki búin að gera mér neinar vonir enda voru margir búnir að standa sig vel,” segir Valdís Þóra um sigurinn í kjörinu. Þar er engu logið því ÍA eignaðist alls 66 Íslandsmeistara í 11 íþróttagreinum á nýliðnu ári. Valdís Þóra er þó afar vel að titlinum komin. Hún varð Íslandsmeistari unglinga í holukeppni síðastliðið sumar, hafnaði í öðru sæti í heildarstigakeppni GSÍ í sínum aldursflokki og spilaði meðal bestu kvenkylfinga landsins á Kaupþingsmótaröðinni. Auk þess tók hún þátt í landsliðsverkefnum og æfingaferðum á vegum GSÍ og var valin í TEAM Iceland, æfingahóp íslenskra afrekskylfinga. Næsta verkefni Valdísar Þóru er einmitt ferð til Flórída með þeim hópi. “Ég fer þangað í æfingabúðir á þriðjudag eftir viku, svo fer ég til Spánar að æfa í febrúar og loks til Kýpur að keppa í apríl,” segir Valdís Þóra sem er nýorðin 18 ára gömul og keppir því í fyrsta skipti í flokki fullorðinna í mótaröðinni hér heima næsta sumar. Hún segist hafa sett sér það markmið að gera sitt besta. “Ég ætla að láta finna fyrir mér í þessari mótaröð.”