14. janúar. 2008 08:12
Fyrsta umferða spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er nú lokið. Gengi vestlensku liðanna var ekki sérlega gott í keppninni og duttu þrjú þeirra út en lið Menntaskóla Borgarfjarðar komst áfram með því að vera eitt þriggja stigahæstu tapliða fyrstu umferðar. Úrslit úr fyrstu umferð urðu þau að Fjölbrautaskóli Vesturlands tapaði fyrir Borgarholtsskólanum 22:13, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti vann Menntaskóla Borgarfjarðar 22:16, Menntaskólinn í Hamrahlíð sigraði starfsmenntabraut LbhÍ á Hvanneyri 20:8 og Verslunarskólinn sigraði Fjölbrautaskóla Snæfellinga 16:9.
Eins og áður segir heldur lið Menntaskóla Borgarfjarðar áfram í aðra umferð og mætir liði MH á þriðjudagskvöld klukkan 20 á Rás 2.
Keppendur Menntaskóla Borgarfjarðar eru þau Eggert Sigurðsson, Elín Elísabet Einarsdóttir og Skúli Guðmundsson. Varamaður og liðsstjóri er Margrét Ársælsdóttir. Ungur aldur keppenda MB hefur vakið athygli en Elín er 15 ára, Eggert og Margrét 16 ára og Skúli 17 ára. Líklega er þetta því yngsta keppnislið Gettu betur keppninnar frá upphafi.