21. janúar. 2008 01:42
Stjórnendur HB Granda tilkynntu það á fundi með starfsfólki um kl. 11 í morgun að öllu starfsfólki fyrirtækisins í landvinnslunni á Akranesi yrði sagt upp störfum frá og með 1. febrúar næstkomandi. Eftir það er áætlað að endurráða 20 starfsmenn í jafnmörg stöðugildi til flakavinnslu og vinnslu loðnuhrogna. Á launaskrá eru 59 starfsmenn í 44 stöðugildum. Tæplega 40 starfsmenn missa því atvinnu sína hjá HB Granda.
Samkvæmt tilkynningu frá HB Granda er ástæða uppsagnanna nauðsynleg hagræðing í rekstri eftir skerðingu aflamarks í þorski.
“Þetta er einn svartasti dagur sem við Akurnesingar höfum gengið í gegnum síðustu áratugi,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sem fundaði með forsvarsmönnum HB Granda klukkan 9 í morgun og var viðstaddur þegar starfsfólki fyrirtækisins var tilkynnt um áformin. “Þarna er fjöldi starfsmanna með áratuga starfsreynslu að missa sitt lífsviðurværi. Að sjálfsögðu var öllum verulega brugðið og ég tel það víst að Skagamönnum öllum sé ekki síður brugðið. Þú finnur vart fjölskyldu á Akranesi þar sem enginn hefur verið á launaskrá hjá þessu fyrirtæki. Það er hreint út sagt skelfilegt að svona sé komið fyrir fyrirtæki sem hélt upp á 100 ára afmæli sitt fyrir tveimur árum síðan. Það er hægt að segja það nákvæmlega eins og er að Akurnesingum hefur smám saman verið að blæða út frá því að HB var sameinað Granda fyrir tæpum fjórum árum síðan og ég tel þetta vera upphafið að endalokunum,” segir Vilhjálmur.
Í fyrrnefndri tilkynningu frá HB Granda segir meðal annars: “Eftir skerðingu aflamarks í þorski hefur botnfiskvinnslan á Akranesi, sem áður snerist um þorsk, verið starfrækt með því að flytja á Akranes hluta þess ufsa, sem ella hefði verið unninn í Reykjavík. Slíkt fyrirkomulag er ekki hagkvæmt.” Fyrirtækið getur þess að til skoðunar sé að efla í staðinn loðnuvinnslu á Akranesi á loðnuvertíð. Sömuleiðis að stjórn fyrirtækisins geri sér grein fyrir því að uppsagnirnar nú séu alvarleg tíðindi fyrir fjölda fólks sem hafi starfað lengi hjá félaginu og harmi að til þessa þurfi að koma. “Rekstrarumhverfi landvinnslunnar er hins vegar þess eðlis að breytingar eru óhjákvæmilegar í starfseminni með tilheyrandi fækkun starfsfólks,” segir ennfremur í tilkynningunni.
Stjórn HB Granda tekur endanlega ákvörðun um breytingarnar á Akranesi næstkomandi mánudag.