25. janúar. 2008 01:36
Gísli S. Einarsson bæjarstjóri á Akranesi segir að nú sé unnið að því að fá setta upp hraðamyndavél í bænum sem festir ökuníðinga á filmu. “Lögreglan tekur hér 10-15 manns á viku fyrir hraðakstur en ástandið batnar ekkert. Þetta aksturslag sem tíðkast hér meðal sumra gengur út yfir allan þjófabálk,” segir Gísli. “Þessi myndavél verður sennilega færanleg líkt og er í göngunum. Bæjaryfirvöld eru að vinna að þessu í samstarfi við sýslumanninn hér á Akranesi. Svona vélar eru dýrar og kosta á bilinu 7-8 milljónir en við eigum einfaldlega ekki kost á öðru eins og aksturslagið er orðið.”
Gísli nefnir Faxabrautina sem dæmi um stað þar sem ástandið er hvað verst. “Svo má nefna Esjubrautina frá hringtorgi niður að Ægisbraut og staði víðar í bænum. Auk þessa stendur til að setja upp myndavél á svæðinu við Nótastöðuna þar sem eilíft spól og hringsnúningar skapa bæði mikla hættu og valda skemmdir á umhverfinu svo sem malbiki.
Ekki er ljóst hvenær myndavélirnar verða settar upp ef af verður. “Ég hef lagt inn erindi hjá sýslumanni og vonast til þess að fá svör fljótlega. Í millitíðinni er líklegt að við grípum til hraðatakmarkandi aðgerða með því að setja óþægilegar takmarkanir á göturnar. Gallinn við þær er að þær bitna á öllum ökumönnun en ekki bara þessum ofbeldisseggjum í umferðinni.”