25. janúar. 2008 12:00
Atlantsolía opnaði nýja bensínstöð með pompi og prakt við Vallárás ofan við Borgarnes á miðvikudag. Fjöldi fólks var viðstaddur opnunina. Það var Páll S. Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar sem formlega opnaði stöðina með því að dæla á fyrsta bílinn, einn af bílum björgunarsveitarinnar Brákar. Páll naut við það aðstoðar Guðmundar Finns Guðmundssonar frá Brák, en hlutfall af hverjum seldum lítra mun renna til sveitarinnar fyrsta starfsmánuðinn.
Albert Þór Magnússon framkvæmdastjóri Atlantsolíu bauð gesti velkomna og lýsti yfir ánægju sinni með að félagið væri búið að staðsetja sig á Vesturlandi. Þessi stöð í Borgarnesi er þrettánda bensínstöð félagsins. Albert sagði Atlantsolíu-menn binda miklar vonir við stöðina sem sker sig úr vegna staðsetningar, en hún stendur sjálfstætt við bæjarmörkin þegar ekið er úr Norðurárdalnum á suðurleið. Stöðin við Borgarnes er meðal þeirra stærstu sem Atlantsolía hefur byggt, með átta dælum og miklu rými.
Páll S. Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar bauð Atlantsolíu velkomna á svæðið og sagði víðsýnið og víðáttu héraðsins skapa mikla möguleika. Páll fagnaði komu Atlantsolíu á svæðið við Vallarás og sagði að væntanlega ætti eftir að byggjast þar þjónustukjarni á næstu árum.