04. febrúar. 2008 11:17
Á síðasta fundi byggðaráðs Borgarbyggðar var samþykkt erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem Borgarbyggð er boðin þátttaka í verkefni um samanburð á rekstri grunnskóla.
Í samtali við Skessuhorn sagði Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Samband íslenskra sveitarfélaga sæi um og héldi utan um þetta verkefni. Í þeim pakka sem Borgarbyggð væri boðin þátttaka í væru Ísafjarðarbær og Fljótsdalshérað. „Þessi þrjú sveitarfélög eiga margt sameiginlegt. Það er búið að fara í gegnum sameiningu á þessum þremur stöðum, öll sveitarfélögin reka nokkuð marga grunnskóla og eru svipað fjölmenn þótt Borgarbyggð sé reyndar fámennust. Við teljum að þetta geti verið kjörið tækifæri til þess að bera saman bækur sínar, lagfæra og leiðrétta ef með þarf í okkar grunnskólastarfi.“