07. febrúar. 2008 07:40
Breiðafjarðarfléttan, samtök ferðaþjónustuaðila í báðum Barðastrandasýslum, Dölum og á Snæfellsnesi, var stofnuð á síðasta ári. Félagsskapurinn er klasi ferðaþjónustuaðila við Breiðafjörð og er verkefnið hugsað til tveggja ára með styrk frá Vaxtarsamningum Vesturlands og Vestfjarða. Markmið samstarfsins er einkum að efla ferðaþjónustu við Breiðafjörð með því að nýta sérstöðu svæðinsins. Félagsskapurinn hefur nú sent frá sér ályktun til samgönguráðherra þar sem vakin er athygli á samgöngumálum og aðgengi að ferðamannastöðum í kringum Breiðafjörð.
Svanborg Siggeirsdóttir formaður Breiðafjarðarfléttunnar sagði í samtali við Skessuhorn að aðilar innan fléttunnar teldu að til að efla ferðaþjónustu á svæðinu þurfi að stórbæta aðgengi að náttúruperlum og sögustöðum. Í tilkynningur frá samtökunum segir að áríðandi sé að framkvæmdir sem nú eru á vegaáætlun við norðanverðan Breiðafjörð hefjist strax og einnig framkvæmdir við þá áfanga sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hraða. Auk þessara framkvæmda séu enn nokkrir vegir ófullnægjandi á svæði Breiðafjarðarfléttunnar og dregur það úr umferð ferðamanna um eftirsóknarverð svæði. „Við lásum í fyrsta tölublaði Skessuhorns á þessu ári að ráðherra talaði um að verulegar framfarir yrðu í gerð tengivega. Þar segir orðrétt: „Við samþykkt samgönguáætlunar fyrir árin 2007-2010 á síðasta ári var ákveðin veruleg hækkun á fjárveitingum til tengivega frá og með árinu í ár og eru raunar horfur á að á þessu ári verði enn aukið við þannig að gera má ráð fyrir verulega auknum framkvæmdum á þessum vegum á næstunni.“ Við vonum sannarlega að ráðherra standi við þessi orð sín og setji aukið fé í uppbyggingu á þessum vegum. Einnig teljum við að sveitarstjórnarmenn, fyrir hönd okkar íbúanna, megi alveg láta meira í sér heyra varðandi vegamál. Það er slæmt þegar heyrist að bílaleigur eru farnar að banna viðskiptavinum sínum að aka um tiltekin svæði vegna malarvega þar. Vöxtur ferðaþjónustu á landsbyggðinni byggir á góðum samgöngum. Afkoma greinarinnar er háð fjölgun ferðamanna og lengingu ferðamannatímans. Ályktun Breiðafjarðarfléttunnar kemur til af því,“ sagði Svanborg.