09. febrúar. 2008 02:32
“GSM þjónustusvæði Vodafone er orðið það stærsta á Íslandi, með tilkomu nýrra langdrægra GSM senda sem m.a. tryggja viðskiptavinum Vodafone talsamband í allt að 100 kílómetra á haf út og á hálendinu,” segir í tilkynningu frá Vodafone. Þar segir einnig að alls verði 50 langdrægir GSM sendar settar upp víðs vegar á landinu, en nú þegar eru um 10 þeirra komnir í notkun. Ráðgert er að uppsetningu sendanna ljúki að fullu á fyrri hluta ársins og GSM samband verði þá komið á stærstan hluta hálendisins og á hafinu umhverfis landið.
Langdræga kerfið er hrein viðbót við núverandi GSM kerfi og bylting í öryggismálum fyrir marga sjófarendur og ferðalanga á hálendinu. Með uppsetningu skapast tækifæri fyrir fólk að nota GSM síma miklu víðar en hingað til og ekki þarf að skipta um símtæki þegar farið er út á sjó eða upp á hálendi. Enginn aukakostnaður fellur á símnotandann við notkun á hinu nýja langdræga kerfi, því sama gjaldskrá gildir fyrir símtöl í langdræga GSM kerfinu og því hefðbundna.
“Uppbyggingin langdræga GSM kerfisins er á markaðslegum forsendum, þar sem markmiðið er að veita viðskiptavinum Vodafone enn betri þjónustu en hingað til og stækka þann stóra hóp fólks sem hefur valið Vodafone. Til viðbótar við þessa uppbyggingu hefur Fjarskiptasjóður samið við Vodafone, fyrir hönd íslenska ríkisins, um að fyrirtækið taki að sér uppbyggingu á GSM þjónustu á völdum svæðum á landinu þar sem markaðslegar forsendur standa ekki undir rekstri slíkrar þjónustu. Alls er um að ræða 32 svæði, sem flest eru á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Stefnt er að því að ljúka því verkefni á árinu,” segir Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone í samtali við Skessuhorn.