09. febrúar. 2008 03:45
Í dag útskrifaðist fríður hópur nemenda frá Háskólanum á Bifröst. Þeir nemendur sem sköruðu fram úr hlutu að vanda bókagjöf frá skólanum. Verðlaun fyrir hæstu einkunn fyrir meistararitgerð hlutu þau Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, Halla Björg Evans, Tinna Sigurðardóttir, Unnur Kristín Sveinbjarnardóttir og Hallmar Sigurðsson en hann hlaut jafnframt hæstu einkunn í meistaranámi. Sigrún Ósk Kristjánsdóttir hlaut verðlaun fyrir hæstu einkunn í grunnnámi við félagsvísindadeild, Brynjar Þór Þorsteinsson fyrir hæstu einkunn í grunnnámi í viðskiptadeild og Vilmar Freyr Sævarsson fyrir hæstu einkunn í grunnnámi í lagadeild.
Nemendur sem njóta afsláttar á skólagjöldum á næstu önn vegna framúrskarandi námsárangurs eru Aldís Olga Jóhannesdóttir, Georg Brynjarsson, Guðrún Björk Friðriksdóttir, Hafdís Anna Bragadóttir, Halldór Berg Harðarson, Helga Björg Jónsdóttir, Kristinn Gestsson, Linda Björk Sigurðardóttir, Lovísa Rósa Bjarnadóttir, Pálmar Þorsteinsson, Ragnhildur Sigurbjartsdóttir, Sandra Einarsdóttir og Þorkell Jóhannes Traustason. Þessir nemendur hafa þar með áunnið sér sæti á Bifrastarlistanum svokallaða en hann birtir nöfn þeirra sem ná bestum námsárangri við Háskólann á Bifröst.
Við þetta tækifæri greindi rektor frá því að systkinin Óttar, Sigrún og Guðrún Eggertsbörn hafi fært skólanum bókasafn foreldra þeirra Eggerts Steinþórssonar og Gerðar Jónasdóttur að gjöf í minningu þeirra. Gerður var dóttir Jónasar frá Hriflu, stofnanda Samvinnuskólans og konu hans Guðrúnar Stefánsdóttur. Bókagjöfin inniheldur þúsundir titla og þakkaði rektor þessa stóru gjöf af heilum hug um leið og hann lét þess getið að bækur væru allt í háskóla og það væri enginn háskóli án góðs bókasafns.