11. febrúar. 2008 03:21
Vesturlandsliðunum gekk vel í úrvalsdeildinni í körfuknattleik síðustu vikuna. Skallagrímur kom til baka og náði að kvitta fyrir tapið í undanúrslitum bikarkeppninnar, sigraði Fjölnismenn örugglega 79:66, og er nú í 4. sæti deildarinnar með 20 stig. Snæfell vann einnig góðan sigur þegar Hamarsmenn komu í heimsókn, 98:80. Snæfell er nú í 6. sæti úrvalsdeildarinnar með 16 stig og virðist liðið vera á uppleið þótt ekki hafi gengið vel upp á síðkastið að ná í brúklegan erlendan leikmann í bakvarðarstöðuna.
Snæfell náði strax góðri forystu gegn Hamri á sunnudagskvöld. Staðan var orðin 15:6 eftir aðeins fjórar mínútur en Hamarsmenn tóku við sér þannig að aðeins var þriggja stiga munur eftir fyrsta leikhluta, 24:21. Leikurinn var nokkuð í jafnvægi framundir leikhlé, Snæfell þó heldur með frumkvæðið og staðan viðunandi fyrir þá í leikhléi, 49:41, eftir að Shouse skoraði þrist á lokasekúndunum.
Hlutirnir fóru að gerast snemma í seinni hálfleik og Snæfell komst í 67:50 með hröðum bolta og þristum þar sem Katholm átti góðan sprett. Staðan þegar síðasti leikhluti hófst var 71:57 og með stórskemmtilegum sóknarleik bætti Snæfell stöðuna í 84:63 eftir fjögurra mínútna sprett. Þessi kafli lagði grunninn að góðum sigri sem gestirnir náðu ekki að ógna í lokin, og lokatölur urðu 98:80.
Hjá Snæfelli var Justin Shouse stigahæstur með 23 stig , 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Hlynur gerði 17 stig og tók 10 fráköst. Sigurður Þorvaldsson skoraði einnig 17 stig, Anders Katholm 16 og Slobodan Subasic 14. Hjá Hamar var Nicholas King stigahæstur með 24 stig og 9 fráköst og Roni Leimu með 17 stig.
Bitur sigur Skallagrímsmanna
Skallagrímsmenn komu til baka eftir tapið í undanúrslitunum um daginn og unnu öruggan sigur á Fjölnismönnum í Grafarvoginum á fimmtudagskvöldið 79:66. Þetta var bitur sigur að því leyti að Skallarnir hefðu sannarlega viljað skipta á þessum sigri og tapinu gegn Grafarvogsdrengjunum. Þessir tveir leikir sýna það líka að allt getur gerst í körfubolta og það er ekki alltaf heimavöllurinn sem ræður úrslitum.
Skallagrímsmenn höfðu undirtökin frá upphafi til enda. Það voru erlendu leikmennirnir sem voru í aðalhlutverki í leiknum og sérkennileg staðreynd að í hálfleik var enginn Íslendingur í Skallagrímsliðinu búinn að skora. Þrátt fyrir að leikurinn væri jafn framan af var Skallagrímur með örugga forystu eftir fyrsta leikhluta, 22:14. Minna var hinsvegar skorað í næsta fjórðungi og staðan í hálfleik 36:31 fyrir Skallagrím.
Skallagrímur bætti enn í í þriðja leikhlutanum og lagði þar grunninn að sigrinum, var með 10 stiga forskot þegar gengið var til síðasta fjórðungs og öruggur sigur Skallagrímsmanna varð staðreynd, 79:66 í leik þar sem bæði lið virkuðu í einhverju spennufalli. Stig Skallagríms skoruðu: Milojica Zekovic 30, Darrel Flake 21, Allan Fall 14, Florian Miftari 11, Hafþór Ingi Gunnarsson 2 og Pétur Már Sigurðsson 1. Langstigahæstur í liði Fjölnis var Sean Knitter með 27 stig.