13. febrúar. 2008 03:19
Steinunn Júlía Steinarsdóttir þroskaþjálfi hefur sest að í Norðtungu III í Þverárhlíð í Borgarfirði og sett þar upp heimili fyrir fatlaða einstaklinga sem þurfa skammtímavistun eða sumardvöl. Hún hefur stofnað fyrirtæki um heimilið sem hún kallar „Sveit fyrir alla ehf“. Steinunn segir í samtali við Skessuhorn að hugsunin á bak við fyrirtækið væri sú að foreldrar fatlaðra barna gætu fengið sveitadvöl fyrir börn sín í skamman tíma ef þeir þyrftu að komast í burtu, til dæmis til útlanda eða eitthvert í frí.
„Ég ætlaði ekkert frekar í samstarf við Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðara en þannig varð það samt því ég var beðin um að taka fullorðinn einstakling í fjóra mánuði. Foreldrum er velkomið að hafa samband við mig beint ef þá vantar pláss yfir helgi eða lengur eða viku sumardvöl.“
Steinunn og eiginmaður hennar keyptu þennan hluta Norðtungu fyrir jól og með í kaupunum fylgdu fjárhús og hlaða. Steinunn segir að sér finnist nauðsynlegt að allir fái að njóta dýra og samvista við þau þótt ekki væri nema til að kemba og klappa ef getan leyfði ekki meira. „Ég er búin að kaupa tíu kindur af næsta bæ, er með hunda og það er komin kanína. Einnig er ég að unga út eggjum þannig að eitthvert sýnishorn verður hér af dýrum.“
Aðspurð segir Steinunn að til að byrja með verði starfsmenn þrír, þ.e. hún og foreldrar hennar. Eiginmaðurinn stundar sjó og börnin eru flogin úr hreiðrinu svo þetta fyrirkomulag hentar ágætlega. Eins og staðan er núna hefur Steinunn þrjú herbergi til umráða en þau verða fjögur þegar allt er komið í stand. „Ég hlakka mikið til að búa hér og takast á við þetta verkefni og er viss um að okkur á öllum eftir að líða vel hér,“ segir Steinunn Júlía.