15. febrúar. 2008 04:48
Sóknarnefnd Stykkishólmskirkju ákvað nýlega að ganga til samninga við orgelframleiðandann Klais í Þýskalandi um kaup á nýju orgeli í kirkjuna. Skrifað verður undir samninga við Klais 4. apríl næstkomandi en fyrirtækið mun þó þegar hefja vinnu við smíði orgelsins. Áætlað er að í lok febrúar 2009 að orgelið verði uppsett og tilbúið til notkunar. Þá er ráðgert að gripurinn muni kosta um 40 milljónir króna. Í Stykkishólmspóstinum kemur fram að Klais sé fjölskyldufyrirtæki sem eigi sér rúmlega hundrað ára sögu í orgelsmíði og framleiddi fyrirtækið m.a. hið 70 radda orgel í Hallgrímskirkju.
Fulltrúi frá Klais hefur komið tvisvar m.a. til hljóðmælinga og hannaði í framhaldi af því 21 radda orgel sem hann mælir með í Stykkishólmskirkju. “Það orgel er mjög gott og gætt eiginleikum sem gera það einnig að góðu orgeli til tónleikahalds sem óneitanlega eykur bæði notagildi þess sem og vonandi eftirspurnina eftir kirkjunni t.d. til tónleikahalds,” segir í frétt Stykkishólmspóstsins.