18. febrúar. 2008 02:00
Snæfell hafði betur í „derbíleiknum“ gegn Skallagrími í Hólminum á sunnudagskvöldið. Leikurinn var fremur jafn og spennandi, sérstaklega á lokamínútunum, en lokatölur urðu 85:77. Snæfell bætti þar með stöðu sína í deildinni og er nú komið upp að hlið Skallagríms og Njarðvíkinga í 4.-6. sæti úrvalsdeildarinnar, en hart er barist um fjórða sætið enda gefur það heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.
Snæfell og Skallagrímur eru gamlir erkifjendur á körfuboltavellinum, hafa att kappi reglulega í hálfa öld og alltaf skemmtilegt þegar þessi lið mætast. Ekki var spennan minni að þessu sinni vegna stöðunnar í deildinni. Hólmarar byrjuðu betur í leiknum en gestirnir tóku svo við sér. Snæfell var með fjögurra stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og hélt síðan frumkvæðinu fram að leikhléi, en þá var staðan 46:40.
Sama sagan hélt áfram í seinni hálfleik, Skallagrímsmen að elta, villurnar tóku að hrannast upp og var það gestunum sérstaklega í óhag. Varnarmaðurinn duglegi Pálmi Þ. Sævarsson fékk sína fjórðu villu snemma í hálfleiknum og skömmu síðar einnig Allan Fall, þannig að það syrti verulega í álinn hjá Skallagrími.
Snæfell virtist vera að klára dæmið í byrjun síðasta fjórðungs þegar forskotið var orðið tíu stig, en þá skiptu gestirnir í svæðisvörn sem virkaði ágætlega. Hólmarar gerðu sig svo seka um nokkur mistök á lokakaflanum sem galopnaði leikinn. Þegar 16 sekúndur voru eftir höfðu heimamenn aðeins þriggja stiga forskot, en þá fékk Allan Fall dæmda á sig íþróttamannslega villu. Shouse setti niður vítin og leikurinn var búinn.
Slobodan Subasic var bestur í liði Snæfells, skoraði 25 stig. Justin Shouse gerði 17, Sigurður Á. Þorvaldsson 14, Hlynur Bæringsson 14, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 10 og Anders Katholm 5. Hjá Skallagrími voru atkvæðamestir Daller Fleke með 22 stig og Allan Fall 19. Florian Miftari skoraði 14, Pétur Már Sigurðsson 9, Hafþór Ingi Gunnarsson 7, Pálmi Þ. Sævarsson 5 og Áskell Jónsson 1.