18. febrúar. 2008 03:59
Guðlaugur Óskarsson sem gegnt hefur starfi skólastjóra Kleppjárnsreykjaskóla sl. 30 ár hefur sagt starfi sínu lausu og mun hætta 1. júlí nk. sem skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar, eins og skólinn heitir nú. Nýverið var gengið frá því að Guðlaugur mun stýra verkefni á vegum Borgarbyggðar og mun hann hefja störf við það nk. sumar. Í tengslum við sameiningu sveitarfélaga í Borgarbyggð samþykkti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að veita Borgarbyggð styrk til þess að endurmeta þjónustu sveitarfélagsins í háskólaþorpunum á Bifröst og Hvanneyri sem og þjónustu þess almennt varðandi leik- og grunnskóla. Auk þess mun í tengslum við þetta verkefni sem Guðlaugur mun stýra sérstaklega verða skoðuð áhrif grunnskóla á byggðaþróun og byggðafestu í dreifbýli.