19. febrúar. 2008 02:23
Þegar þjóðvegur eitt um Svignaskarð lokaðist í gærmorgun þurfti að beina umferð um Borgarfjarðarbraut, stofnbraut 50. Þá er farið um Andakíl, Reykholtsdal og Stafholtstungur. Fljótlega kom í ljós að vegurinn þoldi engan veginn þessa miklu og þungu umferð sem um hann fór. Vegkantar fóru að gefa sig m.a. í Litla Kroppsflóa og við Hamra í Reykholtsdal þar sem malbik gaf sig og skvompur komu í veginn. Bjarni Johansen, þjónustustjóri hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Skessuhorn í dag að ljóst væri að tjón á Borgarfjarðarbraut væri nokkuð. “Vegirnir eru gegnblautir eftir miklar leysingar og þola illa þá þungaflutninga sem um þá fara. Borgarfjarðarbrautin er þar að auki mjór vegur sem til stendur að breikka og bæta og til þess hefur nú fengist fjárveiting. Engu að síður hefur orðið tjón á veginum vegna þessarar skyndilegu viðbótarumferð sem um hann fór,” sagði Bjarni.