20. febrúar. 2008 01:00
Eins og fram kom í síðasta tölublaði Skessuhorns og hér á skessuhorn.is fagnaði blaðið tíu ára afmæli sínu á mánudag. Af því tilefni kemur út í dag stórt og mikið afmælisblað sem verður dreift í öll hús á Vesturlandi. Af þeim sökum verður það ekki borið út fyrr en á morgun, fimmtudag.
Fjölmargir hafa orðið til þess að árna blaðinu heilla á þessum tímamótum. Þorgeir Jósefsson er einn þeirra en hann færði Magnúsi Magnússyni útgefanda blaðsins afar frumlega gjöf - eggjabakka.
Í bakkanum voru tíu egg og orðaði Þorgeir það svo að þar væri eitt fjöregg fyrir hvert ár. Auk þess sagðist hann vonast til þess að fyrirtækið héldi áfram að dafna eins og blómi í eggi.
Hugað að heilsu starfsfólks
Þá má nefna að fjölskylda ein á Akranesi kom í morgun færandi hendi á ritstjórn blaðsins og færði starfsfólki ávaxtablandara og fulla körfu af ferskum ávöxtum í tilefni afmælisins. "Við viljum að starfsfólk Skessuhorns borði hollt fæði og endist vel í starfi, það er svo mikilvægt að hugsa um heilsuna," fylgdi þessari rausnarlegu gjöf.