20. febrúar. 2008 02:08
Í samningum sem Borgarbyggð gerði við Orkuveitu Reykjavíkur í tengslum við yfirtöku þeirra síðarnefndu á veitum í sveitarfélaginu var ákveðið að OR sæi um öll fráveitumál sveitarfélagsins. Þjónustugjöld voru hækkuð á íbúa vegna þessa á síðasta ári því framkvæmdir áttu að hefjast þá, en öllu hefur verið seinkað. Nokkur umræða var um þetta mál á síðasta sveitarstjórnarfundi Borgarbyggðar, hvort tafir á framkvæmdum gæfu tilefni til að stöðva greiðslur til OR og hvort rétt sé að innheimta þjónustugjöld af íbúum vegna framkvæmda sem ekki eru hafnar. Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri segir að þessar greiðslur nýtist síðar en það sé hins vegar rétt að framkvæmdir hafi átt að hefjast á síðasta ári. Þær hafi tafist, meðal annars vegna skipulagsmála en allt útlit sé fyrir að framkvæmdir fari senn í gang.