25. febrúar. 2008 07:35
Óhætt er að segja að gamanóperan Sígaunabaróninn hafi slegið í gegn í Borgarfirðinum en hún hefur nú verið sýnd fyrir fullu húsi í Gamla Mjólkursamlaginu í Borgarnesi í febrúar. Uppselt er á allar sýningar sem skipulagðar hafa verið. Aukasýningar hafa verið settar í sölu og eru enn nokkrir miðar lausir á þær; laugardaginn 1. mars, sunnudaginn 2. mars og þriðjudaginn 4. mars. Þetta eru jafnframt síðustu sýningarnar sem eru fyrirhugaðar. Það er samdóma álit þeirra gesta sem komið hafa að afar vel hafi tekist til við uppsetninguna á Sígaunabaróninum og þetta sé hin besta skemmtum. Sýningin er lokaþátturinn í 40 ára afmælishátíð Tónlistarskóla Borgarfjarðar sem staðið hefur undanfarið ár og jafnframt til að halda upp á 20 ára afmæli Söngdeildar skólans.
Frumkvæðið að þessu framtaki átti Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri tónlistarskólans en hún, eiginmaður hennar og dætur hafa öll tekið virkan þátt í uppfærslunni og leika þau hjón burðarhlutverk. Theodóra réði Ásu Hlín Svavarsdóttur sem leikstjóra og Garðar Cortes sem tónlistarstjóra í uppfærslunni, en Zsuzsanna Budai annast píanóleik.
Á fyrri myndinni eru Dagný Sigurðardóttir í hluverki Cipru, Theodóra Þorsteinsdóttir í hlutverki Saffi og Snorri Hjálmarsson í hlutverki Barinkay sígaunabaróns. Kórinn í baksýn. Ljósmynd: OHR
Síðari myndin er úr lokaatriði Sígaunabarónsins. Ingþór Friðriksson í hlutverki Zsupan í broddi fylkingar. Ljósmynd: RS