27. febrúar. 2008 10:09
Ungu mennirnir tveir sem lentu í alvarlegu bílslysi á Vesturgötu á Akranesi á mánudag í liðinni viku liggja báðir á sjúkrahúsi. Sá sem var farþegi í bílnum liggur á gjörgæsludeild Landspítalans og er haldið sofandi í öndunarvél. Hann er mjög alvarlega slasaður, að sögn vakthafandi læknis. Ökumaðurinn slasaðist ekki eins alvarlega og er á batavegi. Í gær, þriðjudag var haldin bænastund í Akraneskirkju að beiðni vina ungu mannanna og fjöldskyldna. Henni stýrðu Sr Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur á Akranesi og Sr Skírnir Garðarsson, afleysingaprestur í Saurbæ. Tæplega 200 manns komu í bænastundina. Í lok athafnar tendruðu kirkjugestir bænarkerti vegna hinna slösuðu.
Vinafólk drengjanna og ættingjar tóku þátt í stundinni, einnig lögregluþjónar á Akranesi sem voru á vakt. Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti lék hugljúfa sálma.