27. febrúar. 2008 12:15
Í gær hittust starfsmenn Bjarnarbrautar 8 í Borgarnesi til að fræðast og spjalla um aukna sorpflokkun og endurvinnslu frá fyrirtækjum í húsinu. Húsfélagið hefur nú unnið að því að koma upp aðstöðu til sorpflokkunar og fengið 500 lítra endurvinnslutunnu frá Gámaþjónustunni til þess. Með því sýnir húsfélagið og starfsfólk hússins ábyrgð gagnvart umhverfinu en með samhentu átaki er hægt að draga verulega úr því sorpmagni sem fer til urðunar í Fíflholtum. Starfsfólk kynnti sér aðferðafræði flokkunarinnar, en Ragnhildur Helga Jónsdóttir frá UMÍS, fræddi fólk um þá flokka sem mega fara í endurvinnslutunnuna.
Í máli Ragnhildar kom m.a. fram að flokkunin skilar sér alla leið, þ.e. flokkaði úrgangurinn endar ekki í urðun. Viðhorf úrgangsmála hafa breyst nokkuð og þau efni sem flokkuð eru frá hinu almenna sorpi eins og pappír, plast og ál eru nú verðmæti í augum fólks – ekki rusl, sagði Ragnhildur.
Þetta framtak ætti að vera öðrum fyrirtækjum og stofnunum hvatning til aukinnar sorpflokkunar.