07. mars. 2008 12:35
Ráðherrar ríkisstjórnar Íslands gáfu sér tíma fyrir vikulegan ríkisstjórnarfund í morgun til að leggja átakinu Karlmenn og krabbamein lið og keyptu fyrstu slaufurnar sem seldar eru til styrktar kynningarátakinu. Slaufurnar verða seldar næstu tvær vikur á fjölda útsölustaða um allt land. Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til sérstaks átaks um karlmenn og krabbamein hér á landi. Einkennistákn átaksins er þrílit slaufa; blá, hvít og fjólublá, en litirnir tákna þrjú algengustu krabbamein í körlum; blöðruhálskirtils,- lungna- og ristilkrabbamein. Slaufan er hönnuð að frumkvæði Krabbameinsfélags Íslands.
Að meðaltali greinast árlega um 630 íslenskir karlar með krabbamein, þar af 190 með krabbamein í blöðruhálskirtli, 64 með lungnakrabbamein og 51 með ristilkrabbamein. Horfur þeirra sem greinast með krabbamein á Íslandi eru almennt góðar en miklu skiptir að bregðast sem fyrst við einkennum og því geta fræðsla og forvarnir um einkenni og úrræði skipt sköpum.