07. mars. 2008 08:12
Mikil mildi þykir að ekki varð stórslys á þriðja tímanum í kvöld þegar rúta með 50 unglingum lenti aftan á gámaflutningabíl við afleggjarann að Höfn í Melasveit. Tveir unglinganna úr rútunni voru fluttir á slysadeild en þeir kvörtuðu undan bakverkjum. Aðra sakaði ekki. Flestir ef ekki allir aðrir farþegar í rútunni voru í öryggisbeltum að kröfu kennara þeirra og átti það stærstan þátt í að fleiri slösuðust ekki. Tildrög óhappsins voru þau að ökumaður pallbíls með timburfarm sem kom að sunnan hugðist beygja inn á afleggjarann að Höfn. Þá kom aðvífandi gámabíll í sömu akstursstefnu og skall aftan á honum. Næsti bíll á eftir gámabílnum var rútan og sá ökumaður hennar ekki möguleika á að stöðva í tæka tíð og hugðist reyna að sneiða fram hjá bílunum á vinstri vegarhelmingi en þar kom bíll á móti og stefndi því í harðan árekstur. Ökumaður bílsins sem kom á móti beygði útaf veginum en þá hafði ökumaður rútunnar sveigt aftur inn á eigin vegarhelming og lenti því aftan á gámabílnum.
Bílarnir voru allir töluvert skemmdir og var rútan flutt í burtu með kranabíl. Slökkvilið Borgarbyggðar kom á staðinn og hreinsaði um 200 lítra af hráolíu upp af svæðinu en hún lak frá rútunni eftir að gat kom á hráolíuleiðslu. Óhappið átti sér stað skammt frá þar sem Hafnará rennur og var lögð áhersla á að forða því að olía færi í ána, en þar er seiðaeldi.