13. mars. 2008 10:30
Eins og sjá má í auglýsingu í Skessuhorni vikunnar er verið að opna frumkvöðlasetur í Borgarnesi. Þetta er samstarfsverkefni Vaxtarsamnings Vesturlands, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Sparisjóðs Mýrasýslu og Borgarbyggðar. Að sögn Torfa Jóhannessonar, verkefnisstjóra Vaxtarsamningsins er um að ræða eitt af áhersluatriðum Vaxtarsamningsins. „Við sjáum að á Vesturlandi eru að mörgu leyti kjöraðstæður fyrir sprotafyrirtæki. Við höfum sterkt menntakerfi, nokkur rannsóknasetur, útbreitt háhraðanet og góðar tengingar við höfuðborgarsvæðið. Þá er atvinnuráðgjöf SSV öflug og hefur í gegnum tíðina unnið mikið með frumkvöðlum. Með frumkvöðlasetrinu er ætlunin að ramma betur inn stuðning við sprotafyrirtæki og frumkvöðla ásamt því að bjóða þeim skrifstofuaðstöðu í nánum tengslum við atvinnuráðgjöfina.”
En hver er þörfin fyrir frumkvöðlasetur á Vesturlandi? „Það vitum við í sjálfu sér ekki,” segir Torfi. „Við vitum að sambærileg starfsemi hefur gengið misjafnlega á Akureyri en mjög vel á Höfn í Hornafirði og hjá Impru í Reykjavík er komin hátt í 10 ára reynsla af sambærilegu verkefni. Við höfum líka kynnt okkur reynslu Skota og þar leggja menn áherslu á að þörfin komi aldrei í ljós fyrr en farið er af stað”. Aðspurður um hvort ætlunin sé að útvíkka starfsemina til annarra þéttbýlisstaða á Vesturlandi ef vel gengur segir Torfi það koma vel til greina. „Við ætlum að byrja smátt og í nánum tengslum við Atvinnuráðgjöf SSV, en ef vel gengur gætum við innan fárra ára séð frumkvöðlasetur víðar á Vesturlandi.