15. maí. 2008 01:20
„Ég finn svo sem ekki mikla breytingu á mér þó ég sé kominn í Sjálfstæðisflokkinn, enda er ég sami jafnaðarmaðurinn og áður. Hinsvegar linnir ekki látum hjá ættmennum mínum sem margir eru sjálfstæðismenn og ýmsum kunningjum. Þeir eru svo ánægðir með þetta og eru að óska mér til hamingju. Ég sé aftur á móti ekki neina sérstaka ástæðu til slíks fagnaðar,“ sagði Gísli S. Einarsson þegar hann var mættur til vinnu á bæjarskrifstofuna á Akranesi nú í morgunsárið, eftir erfiðan og erilsaman gærdag. Þá tilkynnti hann meðal annars inngöngu sína í Sjálfstæðisflokkinn um leið og flokksskráin var opnuð fyrir Karenu Jónsdóttur formanni bæjarráðs Akraness.
Gísli segir að sjálfstæðismenn séu margir í sinni ætt og genin sjálfsagt til staðar. Til að mynda hafa móðurafi sinn verið algjörlega blindur sjálfstæðismaður. „Hann flaggaði því á hverjum degi ef hann hafði tök á og sjálfsagt hefði hann verið ánægður með það að vita af mér í flokknum. Þetta er að mínu viti ekki spurningin um íhaldið, enda hef ég ekki kynnst neinum eins miklum íhaldsmönnum eins og gömlum kommum,“ segir Gísli og skírskotaði til þeirrar kenningar að það væri hagkvæmt að geta stundað sinn kapítalisma í skjólinu á vinstri vængnum.