28. maí. 2008 02:04
 |
Umferðareftirlitið stöðvaði bíl BA á Snæfellsnesi í gær. |
Bíll frá Björgunarfélagi Akraness var stöðvaður við Vegamót á Snæfellsnesi síðdegis í gær af umferðareftirliti Vegagerðar ríkisins. Eftirlitsmennirnir tóku sýni úr eldsneytistanki bílsins, af litaðri díselolíu sem var á tanknum. Ásgeir Kristinsson formaður Björgunarfélags Akraness var ekki sáttur vegna þessarar stöðvunar og sýnatöku eftirlitsins, þar sem hann segir að björgunarfélagið hafi eins og aðrar björgunarsveitir tvímælalaust heimild til notkunar á litaðri díselolíu, sem er umtalsvert ódýrari en venjuleg olía.
Sveinn Ingi Lýðsson hjá umferðareftirliti Vegagerðarinnar segir að vísbendingar hafi borist um að björgunarsveitarbíllinn hafi verið í annarri notkun en í beinu starfi björgunarsveitanna eins og reglur heimila fyrir notkun á lituðu díselolíunni. „Því þótti okkur rétt að taka sýnið og við eigum það í okkar fórum ef á þarf að halda. Engin kæra hefur verið lögð fram og ennþá höfum við ekki nappað neinn frá björgunarsveitunum við notkun á olíunni í ólöglegum tilgangi og vonandi kemur ekki til þess.“
Sveinn Ingi segir að umferðareftirlitinu hafi borist ábendingar um að björgunarsveitirnar væru að taka að sér launuð verkefni og t.d. hafi samkeppnis- og hagsmunaaðilar kvartað undan þessu. „Það var af þessum sökum sem okkur þótti ekki stætt á öðru en að taka sýnið,“ segir Sveinn Ingi Lýðsson.
Ásgeir segir það vera orðið ansi hart ef björgunarsveitarmenn þurfi að standa í skilgreiningum og jafnvel afla lögfræðiálits áður en sveitirnar taki að sér fjáraflanir, sem var þó ekki í þessu tilviki. „Það er þá hreinlega nær að ríkið fari að styrkja almennilega þessa starfsemi til að þurfa ekki að standa í svona vangaveltum, þar sem þær fáu krónur sem frá ríkinu koma fljúga margfalt til baka í formi skatta og skyldna. Og að við séum að standa í samkeppni er fráleitt, við erum í því að hjálpa fólki,“ segir Ásgeir Kristinsson.
Félagar í Björgunarsveitinni voru að koma úr ferð á Snæfellsjökul og frá Gufuskálum. Ferðin var farin m.a. í tilefni þess að námskeiðum í fjallabjörgun er nýlokið og var liður í því námskeiði úttekt á aðbúnaðinum á Gufuskálum, þar sem æfingaraðstaða Slysavarnarfélagins Landsbjargar er, með tilliti til frekara námskeiðahalds í framtíðinni, að sögn Ásgeirs Kristinssonar formanns Björgunarfélags Akraness.