08. júní. 2008 06:03
HK og ÍA gerðu 1:1 jafntefli þegar liðin áttust við á Kópavogsvelli í dag. Bæði liðin hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabili. HK menn sátu fyrir leikinn á botninum með aðeins 3 stig. Skagamenn voru hinsvegar í 10. sæti með 5 stig en þeir höfðu fyrir leikinn í dag tapað síðustu þremur leikjum. HK-ingar komust yfir á 26. mínútu með marki frá Mitja Brulc en Vjekoslav Svadumovic jafnaði metin fyrir Skagamenn með vítaspyrnu sem dæmd var á Hólmar Örn Eyjólfsson fyrir að handleika boltann innan teigs. Skagamenn léku manni færri í 40 mínútur eftir að Stefáni Þór Þórðarsyni var vikið af velli eftir 50 mínútna leik. Aðdragandi þess var sá að Stefán Þór og Stefán Jóhann Eggertsson varnarmaður HK fara saman upp í skallabolta. Stefán Jóhann lá óvígur eftir á vellinum og eftir að aðstoðardómarinn ráðfærði sig við Einar Örn Daníelsson dómara sendi sá síðarnefndi Stefán Þórðarsson útaf með rautt spjald. Hans bíða því sömu örlög og Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara ÍA í þessum leik, að fara í leikbann.