11. júní. 2008 08:04
Alls eru 42 veiðimenn af báðum kynjum skráðir til keppni á sjóstangaveiðimót Sjóstangaveiðifélagsins Skipaskaga (SJÓSKIP) sem haldið verður á föstudag og laugardag, 13. og 14. júní. Róið er frá Akraneshöfn kl. 6 að morgni báða daga og fyrri daginn er veitt til kl. 14 en á laugardag lýkur veiði kl 13. Reikna má með bátunum í land á næstu klukkustundinni eftir það og er fólk hvatt til að mæta á löndunarbryggjuna og fylgjast með því mikil stemning er jafnan þegar verið er að landa og vega og meta fiskinn.
Mótið á Akranesi er í mótaröð Landssambands sjóstangaveiðifélaga og gefur stig til Íslandsmeistaratitils en 7 mót eru haldin víðsvegar um land. Venjulega eru 3 til 5 veiðimenn á hverjum báti svo reikna má með 10-15 bátum að þessu sinni. Þátttakendur koma víðsvegar að af landinu en að loknu móti gerir sjóstangaveiðifólk sér glaðan dag og heldur lokahóf með verðlaunaveitingum og dansleik.