12. júní. 2008 04:45
 |
Borgarverk mun ljúka við Menntaskólabygginguna |
Þó einungis sé um hálfur mánuður síðan ljóst varð að starfsmenn verktakafyrirtækjanna Sólfells og Ans í Borgarbyggð misstu vinnu sína, hafa þeir nú allir, alls um 40 manns, fengið störf að nýju. “Það er sérlega gleðilegt að nú í dag hafa allir starfsmenn þessara fyrirtækja í Borgarbyggð fengið vinnu á ný, það er eitthvað meira en við bjuggumst við þegar uppsagnirnar bárust um mánaðamótin,” sagði Francois Claes trúnaðarmaður starfsmanna Sólfells í samtali við Skessuhorn í dag. Eins og greint var frá í gær hefur Borgarverk í Borgarnesi tekið á sig skuldbindingar og verkefni Sólfells sem samið hefur verið um, meðal annars að ljúka við 3. áfanga byggingar Menntaskóla Borgarfjarðar. Þar með er Borgarverk í raun að fara inn á nýjar brautir því fyrirtækið hefur fram að þessu einkum verið í vega- og gatnagerð og annarri jarðvinnu.
“Það eru 17 starfsmenn Sólfells sem hafa nú ráðið sig til Borgarverks en aðrir hafa fengið vinnu hjá BM Vallá, við bifreiðastjórnun eða fengið önnur störf. Þá hafa nokkrir tékkneskir og pólskir starfsmenn fyrirtækisins samið um áframhaldandi vinnu hjá Ans,” segir Francois.
Aðspurður viðurkennir Francois að hann hafi undanfarinn hálfan mánuð þurft að leggja á sig mikla vinnu sem trúnaðarmaður starfsmanna til að liðka um fyrir að allir fengju störf. “Ég var svo heppinn að hafa lokið trúnaðarmannanámskeiði hjá Stéttarfélagi Vesturlands fyrir einungis mánuði síðan og það gagnaðist mér vel sem undirbúningur fyrir þetta áfall sem uppsagnirnar vissulega voru.”
Hann segir að Borgarverk hafi komið myndarlega að lausn þessa máls, það hafi líka starfsmenn Sólfells gert sem sumir hverjir voru hluthafar í fyrirtækinu og hafa því tapað sínu hlutafé. “Við erum fegin því að geta aftur litið til sólar. Ástandið í fyrirtækinu var orðið slæmt áður en til uppsagnanna kom og við vorum ekki upplýstir um stöðu mála. Nú geta starfsmenn ekki annað en verið bjartsýnir því nýir aðilar hafa tekið að sér að halda utan um þá verktakavinnu sem Sólfell hafði áður. Mest sakna ég þó þess að ekki hefur tekist að tryggja starfsemi verkstæðishússins í Brákarey, en þar var mikil smíðavinna unnin. Það er framtíð í verkstæðisrekstri og þar var fyrirtækið að sinna ýmsum verktökum um sérhæfða smíðavinnu. Vonandi tekst þó að opna verkstæði á öðrum stað,” segir Francois.
Aðspurður segir Francois að nú sé eins og þungi fargi af honum létt. “Konan mín á von á okkar þriðja barni innan tíðar og ég neita því ekki að uppsögn vinnunnar um mánaðamótin var þungt högg fyrir okkur. Því getum við andað léttar núna og vonandi tekur maður fæðingarorlof á næstu vikum og getur sinnt miklu skemmtilegri málum en undanfarna daga. Engu að síður er farsæl lausn nýrra starfa fyrir fjörutíu manns mikið gleðiefni,” sagði trúnaðarmaðurinn að lokum, glaður með málalyktir.