14. júní. 2008 09:19
Bæjarstjórn Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum fyrir sumarfrí að verja 10 milljónum króna úr bæjarsjóði til að hefja viðbyggingu við dvalarheimilið Höfða svo unnt verði að fjölga þar einbýlisherbergjum. Gert er ráð fyrir sambærilegu framlagi frá Hvalfjarðarsveit í hlutfalli við eignarhlut þess sveitarfélags í Höfða, sem er um 10%. Gísli S. Einarsson bæjarstjóri segir þetta fyrst og fremst viljayfirlýsingu hjá bæjarstjórn Akraness. Á Höfða eru nú 11 tveggja manna herbergi fyrir utan hjónaherbergi og segir Gísli það vilja bæjarstjórnar að fjölga tveggja manna herbergjum. „Þetta er bara í takt við kröfurnar í dag og reyndar líka í anda þess sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir.
Við viljum liðka fyrir þessu með því að samþykkja fjárveitingu í viðbyggingu strax og förum með þessa samþykkt í veganesti á fund félagsmálaráðherra,” segir Gísli og bætir við að þetta sé gert í samvinnu við Hvalfjarðarsveit og nú þegar hafi verið pantað viðtal við ráðherra, sem vonandi fáist fljótlega.