24. júní. 2008 08:10
Jón Bjarnason alþingismaður VG fékk ekki fyrir þinglok svör við fyrirspurn sinni til samgönguráðherra um lokun póstafgreiðslna og fækkun póstburðadaga á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Jón lagði fyrirspurnina síðast fram 23. maí sl. og óskaði þá eftir skriflegu svari frá samgönguráðherra. Jón spyr ráðherra í fyrsta lagi hvort orðið hafi stefnubreyting af hálfu stjórnvalda hvað varði póstdreifingu og starfrækslu póstafgreiðslna, einkum í dreifbýli. Þá óskar hann svara við því hvernig ráðherra ætli að bregðast við kæru Vesturbyggðar og Reykhólahrepps vegna áforma Íslandspósts um fækkun vikulegra póstburðardaga.
Hann spyr ráðherra í þriðja lagi um hvort honum sé kunnugt um að Íslandspóstur áformi að fækka póstburðardögum víðar og ef svo sé, þá hvar. Í fjórða lagi spyr þingmaðurinn hve mörgum póstafgreiðslum hafi verið lokað síðustu tvö ár, hvar þær hafi verið og hvaða póstafgreiðslum Íslandspóstur áformi að loka á næstu mánuðum og misserum. Í fimmta og síðasta lagi spyr Jón ráðherra hvernig hann hyggist bregðast við áformum um lokun póstafgreiðslna, t.d. í Varmahlíð, Reykholti í Borgarfirði og víðar.
Jón segir djúpt á svörum frá samgönguráðherra og héðan af berist þau tæplega fyrr en í haust. „Íslandspóstur er hins vegar búinn að boða okkur þingmenn Norðvesturkjördæmis á fund núna á fimmtudag í þessari viku, þannig að væntanlega verðum við upplýstir eitthvað um þessi mál þar,” sagði Jón í samtali við Skessuhorn.