26. júní. 2008 07:36
Segja má að sveitarstjórn Borgarbyggðar hafi nú fengið grænt ljós til að hefja undirbúning strætóferða milli höfuðborgarsvæðisins og Borgarness. Borgarbyggð hefur fengið úthlutað einkaleyfi fyrir sérleiðinni Reykjavík-Borgarnes að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Bréf barst á dögunum frá Vegagerðinni þar sem þetta var tilgreint. Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri segir að þessi skilyrði séu aðallega þau að boðið verði upp á lágmarksfjölda ferða á degi hverjum. Sveitarstjórn Borgarbyggðar leitaði í vetur til Smára Ólafssonar ráðgjafa, sem hefur nú gert tillögur um skipulag almenningssamgagna milli Reykjavíkur og Borgarness. Þessi gögn voru lögðu fyrir byggðarráð Borgarbyggðar í síðustu viku.
Páll sveitarstjóri segir að á næstunni verði fundað með fulltrúum Akraness og Hvalfjarðarsveitar þar sem farið verður yfir þessar hugmyndir.
„Við verðum í samvinnu við Akranes og Hvalfjarðarsveit í þessu máli,” segir Páll sem vonast til að hægt verði að mynda gott þjónustunet í almenningssamgöngunum á þessu svæði, sem nýtist öllum íbúum. Stefnt er á að strætisvagnaferðir hefjist til og frá Borgarnesi sem fyrst, eða með haustinu.