03. nóvember. 2008 08:17
Lokið er uppsetningu fimm veglegra fræðsluskilta í fólkvangnum Einkunnum, skammt frá Borgarnesi. Tvö þeirra eru almenn upplýsingaskilti með gönguleiðakorti. Hin fjalla um náttúrufar á svæðinu, eitt um fugla og tvö um plöntur. Á vef Borgarbyggðar segir að fjórða náttúrufarsskiltið, sem lýsir lífríki Álatjarnar, verði sett upp þegar framkvæmdum við bílastæði, göngustíg, áningarstaði og bryggju er lokið við Álatjörn, en skiltið á að standa við bryggjuna. Gert er ráð fyrir að þessum framkvæmdum við Álatjörn verði lokið á þessu ári. Gerð fræðsluskiltanna var styrkt af Menningarráði Vesturlands en umsjónarnefnd Einkunna og umhverfis- og kynningarfulltrúi sveitarfélagsins höfðu umsjón með verkinu.