10. nóvember. 2008 07:37
Þriðjudagskvöldið 11. nóvember halda þeir Svavar Knútur trúbador og Aðalsteinn Ásberg, skáld og tónsmiður, tónleika á KAFFI 59 í Grundarfirði. Þar flytja þeir frumsamið efni í tónum og tali, en þeir félagar hafa m.a. samið og flutt dagskrána Karímarímambó fyrir leikskólabörn og eru um þessar mundir tíðir gestir í grunnskólum þar sem þeir flytja dagskrá um skáldið Stein Steinarr. Efnisskrá kvöldsins hjá þeim félögum verður fjölbreytt og skemmtileg en einkum beint í fullorðinsátt. Yrkisefnin snúast gjarnan um hina mannlegu tilveru, hamingjuleitina og fleira í þeim dúr og moll.
Svavar Knútur er forsprakki hljómsveitarinnar Hrauns en hefur sem trúbador einnig ferðast víða og verið í samstarfi við trúbadora víða um heim. Aðalsteinn Ásberg hefur um langt árabil starfað með ýmsum tónlistarmönnum, bæði hérlendis og á Norðurlöndum. Tónleikar þeirra félaga á Kaffi 59 hefjast kl. 21