10. nóvember. 2008 02:06
Snæfelli tókst að innbyrða sigur í Iceland Express deildinni gegn sprækum Blikum í Kópavoginum sl. föstudagskvöld, 79:74, eftir jafnan en sveiflukenndan leik í fimmtu umferð Iceland Express deildarinnar. Á sama tíma stóðu Skallagrímsmenn lengi vel í Njarðvíkingum þegar suðurnesjaliðið kom í heimsókn í Borgarnes. Leiknum lauk engu að síður með stórsigri Njarðvíkinga 92:63. Snæfell byrjaði mun betur í Kópvoginum og var með sjö stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og 11 stiga forskot í leikhléi, 41:30. Það var engu líkara en leikmenn Snæfells hefðu sofnað á verðinum í leikhléinu og haldið að sigurinn væri í höfn og það voru Breiðabliksmenn sem voru afgerendi betri í þriðja leikhlutanum og unnu hann með 14 stiga mun. Þar með voru Blikarnir komnir með þriggja stiga forustu fyrir þriðja leikhluta, en þá bitu Snæfellingar í skjaldarrendur að nýju og náðu að knýja fram góðan sigur, 79:74.
Sigurður Á. Þorvaldsson átti mjög góðan leik fyrir Snæfell, skoraði 19 stig og tók 14 fráköst, Jón Ólafur Jónsson gerði 17, Magni Hafsteinsson 14 og tók 7 fráköst, Hlynur Bæringsson 11 og tók 14 fráköst, Danéel A. Kezmi 7, Atli R. Hreinsson 6, Gunnlaugur Smárason 3 og Kristján P. Andrésson 2. Stigahæstur hjá Breiðabliki var Rúnar I. Erlingsson sem skoraði 19 stig.
Fyrri hálfleikur hjá Skallagrími og Njarðvíkingum var hnífjafn. Skallagrímur leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta en var svo tveimur stigum undir í leikhléinu, 44:46. Gestirnir gerðu síðan út um leikinn í þriðja leikhluta sem þeir unnu 27:6. Lokatölur urðu eins og áður segir, 63:92. Stigahæstur Skallagrímsmanna var Sveinn Davíðsson með 17 stig, Sigurður Þórarinsson gerði 11, Trausti Eiríksson 8, Bjarne Ó. Nilsen 7, Pálmi Þ. Sævarsson 6 og Sigursteinn Ó. Hálfdánarson 6.
Næstu leikir Vesturlandsliðanna í Iceland Express deildinni verða nk. föstudagskvöld þegar Snæfell fær ÍR í heimsókn og Skallagrímur sækir Tindastól heim á Krókinn. ÍR-ingar, sem náðu mjög langt í deildinni fyrra, unnu einmitt sinn fyrsta leik sl. föstudag þegar þeir fengu Tindastólsmenn í heimsókn.