14. nóvember. 2008 01:00
Á morgun, laugardag, klukkan 15 hefst hátíðardagskrá í Grunnskólanum Tjarnarlundi í Saurbæ í aldarminningu Steins Steinarr skálds. Nemendur skólans sem eru á aldrinum 6-16 ára frumflytja einn af sex köflum tónverks eftir Snorra Sigfús Birgisson undir stjórn Haraldar G. Bragasonar. Nemendur grunnskólans munu einnig flytja ljóð og Þorrakórinn mun syngja lög við ljóð Steins undir stjórn Halldórs Þorgils Þórðarsonar. Myndverk nemenda, innblásin af ljóðum Steins, verða til sýnis.
Að dagskrá lokinni bjóða nemendur og kennarar Grunnskólans í Tjarnarlundi upp á kaffi og kökur og eru allir velkomnir. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vesturlands og unnið í samstarfi Grunnskólans í Tjarnarlundi, Nýpurhyrnu og Tónlistarskóla Dalasýslu.
Markmið verkefnisins STEINN STEINARR í 100 ár er að kynna börnum og ungmennum í Dalabyggð vinnubrögð tónskálds og kveikja áhuga þeirra á nýsköpun á sviði tónlistar sem byggir á menningararfi heimabyggðar þeirra, en ljóðskáldið Steinn Steinarr var heimamaður á Skarðsströnd og í Dölum. Tónverkið er samið í tilefni aldarafmælis Steins Steinarrs í tengslum við skáldverk hans. Vonast er til að verkefnið geti orðið ungu fólki á svæðinu hvatning til að kynna sér menningararf sinn enn frekar - og að njóta hans sem innblásturs til nýrra verka.
Með því að virkja börn og unglinga á svæðinu til samvinnu við færan fagmann á sviði tónlistar og tónsköpunar er sáð fræjum umhugsunar í hugi barna og unglinga á svæðinu um nýsköpun og menningararf og um möguleika sem þar felast og bíða færis. Mikilvægt er að börn kynninst þeirri upplifun sem fólgin er í því að taka þátt í samstarfi við framúrskarandi fagmenn á sviði lista.