20. nóvember. 2008 11:26
 |
Hluti fundargesta |
Forysta Alþýðusambands Íslands stóð fyrir borgarafundi á Akranesi í gærkvöldi undir yfirskriftinni
Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna. Á fundinn mættu um 50 manns og verður það að teljast lítil fundarsókn þegar tekið er tillit til hvernig hagur heimilanna í landinu er að þróast um þessar mundir. Segja má að fundurinn hafi einkennst af þeirri óvissu sem nú ríkið hér á landi og á meðan ríkisstjórn og forystumenn landsins standa vart í lappirnar í að verja hag landsmanna, geti verkalýðshreyfingin lítið gert annað en beðið átekta meðan spilað er úr þeim málum. Forseti ASÍ hélt framsögu og varð einkum tíðrætt um vandann sem felst í veikum gjaldmiðli og háum vöxtum. Sagði hann stefnu ASÍ að leggja áherslu á að viðhalda atvinnu fremur en að krefjast launahækkana í komandi kjaraviðræðum.
Erum í vítahring
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ opnaði umræðu um stöðuna og framtíðarsýn Alþýðusambandsins með tilliti til útlitsins í efnahagsmálum þjóðarinnar. Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA flutti ávarp. Auk ræðuhalda var boðið upp á tónlistaratriði frá félögum í FÍH og nemendur Grundaskóla fluttu lag úr söngleiknum Vítahring. Ef til vill er nafnið á söngleik barnanna táknrænt fyrir umræðuna sem spannst á fundinum um hugsanlegt afnám verðtryggingar, launaþróun og erfiða stöðu verkalýðshreyfingar fyrir komandi kjaraviðræður þegar tekið er tillit til bágrar afkomu fyrirtækja og hrinu uppsagna sem hafin er. Fundurinn einkenndist af bágri stöðu þjóðarbúsins og mikilli óvissu og er þjóðin því í ákveðnum vítahring. Eftir framsöguerindi voru leyfðar fyrirspurnir úr sal og voru allmargir fundarmenn sem nýttu sér að spyrja forystumenn verkalýðshreyfingarinnar um stöðuna.
Aðild að ESB og upptaka evru
Í erindi sínu ræddi Gylfi Arnbjörnsson m.a. um að vextir og verðbólga á Íslandi sé nú í hæstu hæðum. Sterk krafa er um afnám verðtryggingar lána og sagði hann hana skiljanlega, en vandi væri að finna leið til að framkvæma það. “Ef verðtrygging verður afnumin þurfa heimilin á endanum að borga brúsann. Því óttast ég pennastriksaðferðina í afnámi verðtryggingar,” sagði Gylfi. Sagði hann verðbólgu og gengi krónunnar nú fara illa með hag heimilanna í landinu og verst væru þeir staddir sem keypt hefðu íbúðarhúsnæði á síðustu 1-2 árum. Gylfa varð tíðrætt um gjaldmiðilsmál. “Leiðin út úr verðtryggingarvandanum er að komast inn í annað efnahagskerfi. Okkar fólk þarf að búa við sömu kjör á meðan íbúar nágrannalandanna hafa 4-5% vexti af íbúðarlánum. Hér á landi eru menn nú að borga 22% vexti af íbúðarlánum sökum þess hversu verðbólgan er há. Þar sem verkalýðshreyfingin er vörsluaðili lífeyrissparnaðar þurfa stjórnvöld tafarlaust að koma að málum og taka ábyrga afstöðu til grundvallaratriða í gjaldeyrismálum,” sagði Gylfi. Hann fagnaði jafnframt því að tveir stjórnmálaflokkar hafa nú tekið ákvörðun um að flýta landsfundum sínum þar sem upptaka evru verður til umræðu. “Með aðild að ESB lækkar vöruverð hér á landi og vaxtakjör lækka stórlega,” sagði hann.
Gylfi sagði kjarasamninga lausa 15. febrúar næstkomandi en vill að verkalýðsforystan sýni ábyrgð í formi hófstilltra launakrafna. “Við getum með aðkomu okkar að komandi kjarasamningum lagt skerf til að fall fyrirtækja verði lægra en útlit er fyrir að það verði,” sagði Gylfi sem stórlega varar við því að svokölluð Finnska leið verði farin til endurreisnar efnahagslífsins hér á landi. “Í Finnsku leiðinni var velferðarstigið fellt og atvinnuleysi stórjókst og Finnar hafa ekki enn rétt úr kútnum þó langt sé um liðið frá efnahagshruninu þar í landi. Við í ASÍ viljum axla ábyrgð og forgangsraða þannig að atvinna fólks verði aðalatriðið en það mun bitna á laununum. Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag og það þurfa allir að taka á hinum stóra sínum til að það eigi að takast.”
Vill auka verðmæti sjávarafurða
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði í erindi sínu að framundan blasti við kaupmáttarrýrnun. Sagði hann skýrt að almennt launafólk bæri ekki ábyrgð á því ástandi sem nú ríkti. “Það eru gjörðir fjárglæframanna. Hvað hefur ríkisstjórnin svo verið að gera síðan 6. október síðastliðinn,” spurði hann. Ræddi hann stöðu skuldugra heimila og sagði að lánveitendur, sem nú væri ríkið eftir hrun bankanna, hefði bæði belti og axlabönd til að verja sína hagsmuni. Sagði hann að þörf væri fyrir nýja peningamálasefnu, sagði krónuna of veika og nefndi að tillögur um greiðslujöfnunarvísitölu væru jákvæðar en frestuðu einungis vanda skuldugs fólks. Nefndi hann nokkur vopn sem stjórnvöld gætu beitt. Meðal annars að stöðva útflutning á óunnum fiski og auka þannig útflutningsverðmætin, auka aflaheimilildir í þorski um 30-40 þúsund tonn og þjóðnýta ætti aflaheimildir útgerðarfyrirtækja. Gagnrýndi hann ofurlaunastefnu og ábyrgðir ríkisins gagnvart Icesafe reikningunum. “Hér á landi þarf að taka upp ný gildi; gildi sem leita að réttlæti, jöfnuði og bræðralagi. Það gerist vonandi með kosningum í vor.”
Í fyrirspurnum voru allmargir sem kváðu sér hljóðs. Spurt var nánar um verðtryggingu, gjaldmiðlamál, áhrif lána Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, rætt var um atvinnubótavinnu, að stjórnmálamenn öxluðu ábyrgð og vikju ef þeir ekki væru að standa sig og ýmislegt fleira.
Ekki almenn þátttaka
Fundurinn var boðaður af ASÍ með það í huga að íbúar alls Vesturlands sæktu hann. Það vakti hinsvegar athygli gesta og forystumanna ASÍ að á fundinn mættu fáir gestir og einungis Akurnesingar auk þriggja stjórnarmanna Stéttarfélags Snæfellinga. Ekki einn gestur var á fundinum af starfssvæði Stéttarfélags Vesturlands sem er Hvalfjarðarsveit, Borgarfjörður og Dalir.