28. nóvember. 2008 01:12
Það var líf og fjör í Grundaskóla á Akranesi sl. þriðjudagskvöld þegar Kertasníkir leit í heimsókn hjá nemendum yngsta stigsins. Foreldrafélag skólans gekkst þá fyrir föndurkvöldi þar sem börnin og foreldrar þeirra máluðu piparkökukarla og kerlingar, gerðu músastiga og skreyttu jóladúka. Toppurinn var síðan þegar Kertasníkir leit við, gaf mandarínur og söng með krökkunum. Þeir frökkustu í nemendahópnum voru nokkuð aðgangsharðir í garð sveinka og vildu fá að vita hvort skegg hans væri ekta og toguðu í það. Að sjálfsögðu eru skegg jólasveinanna raunveruleg og kvað við skaðræðisóp þegar kippt var í lengsta lokkinn.