30. nóvember. 2008 06:47
“Síld á Breiðafirði og víðar er sýkt af sníkjudýrinu Iktíófónus. Nær allur fiskur sem sýkist drepst. Hafrannsóknarstofnun hefur óskað eftir sýnum úr hverju kasti allra síldveiðiskipa. Sjómenn urðu sýkingarinnar fyrst varir á föstudag og bráðabirgðarannsókn bendir til þess að um Iktíófónus sé að ræða,” segir í frétt á vef Ruv.is í kvöld. Sýkingin lýsir sér þannig að litlir nabbar standa út úr holdi þeirra fiska sem eru sýktir. “Hægt er að nýta sýkta síld sem veiðist í bræðslu, en ekki til manneldis. Þetta sníkjudýr hefur ekki greinst áður í síld hér við land en hefur fundist í skarkola. Síldarstofninn við Noreg fór hinsvegar illa út úr svona sýkingu árin 1991-l993,” segir í fréttinni.
Rúv hefur það eftir Þorsteini Sigurðssyni sérfræðingi hjá Hafró að almennt þurfi allt að 1,5% stofnsins að vera sýktur svo hægt sé að kalla þetta faraldur. Þorsteinn segir ekki ljóst hversu alvarleg staðan er. Skipstjórar á Breiðafirði hafa gefið þær upplýsingar að talsvert hlutfall aflans sé sýkt. Samstarf er á milli Hafrannsóknarstofnunnar og sjómanna að safna þeim sýnum sem til þess þarf.
12-15 skip voru á síldveiðum í dag, Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri á Súlunni EA sagði í samtali við fréttastofu Rúv að sýkingin virtist ekki vera í síldinni við Reykjanes. Veiðin þar hafi gengið vel.