01. desember. 2008 12:52
Atvinnulífið í Borgarbyggð hefur á síðustu vikum orðið fyrir miklum áföllum. Einkum hefur þess gætt í byggingariðnaði sem skipað hefur veigamikinn sess í atvinnulífi Borgarness og nærsveita. Björn Bjarki Þorsteinsson er forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri Dvalarheimilis aldraðra. Í samtali við Skessuhorn segir hann að nú sé skoðað af alvöru að flýta sem kostur er stækkun Dvalarheimilsins og byggingu húsnæðis undir hjúkrunarrými.
“Við erum í hópi þeirra stofnana sem fengu grænt ljós til fjölgunar hjúkrunarrýma þann 12. ágúst sl. Þar segir að við höfum heimild til að stækka um 32 hjúkrunarrými. Þar sem við höfum fengið þessa fjölgun viðurkennda verður nú skoðað í þaula hvort hægt verði að ráðast í framkvæmdir sem fyrst.
Stjórn DAB hefu verið í góðu sambandi við félagsmálaráðuneytið út af þessu máli og þá hafa stjórnarþingmenn aðstoðað okkur eftir mætti. Það væri mjög jákvætt að koma þessari framkvæmd af stað sem allra fyrst og bæta aðstöðu starfsfólks og heimilisfólks á DAB. Þá væri um leið sérstakur ávinningur að freista þess að bæta verkefnastöðu í byggingariðnaði um leið hér á svæðinu, enda höfum við horft upp á gríðarlegar uppsagnir á undanförnum dögum og mjög brýnt að koma svona verkefni í gang ef það er mögulegt,” sagði Björn Bjarki. “Það eru hinsvegar ytri aðstæður sem segja til um hvort það er mögulegt að flýta þessu verkefni. Stóra spurningin er hvort peningar fáist í verkefnið og þá á hvaða kjörum.”