02. desember. 2008 10:06
Snæfellingar átti ekki erindi sem erfiði þegar þeir áttu í höggi við Grindvíkinga suður með sjó í Iceland Expressdeildinni í gærkveldi. Grindvíkingar reyndust sterkari í hörkuleik og sigruðu 93:81 eftir að hafa haft 11 stiga forskot í hálfleik, 53:42. Snæfell er nú í sjötta sæti deildarinnar með átta stig, tveimur stigum minna en Keflavík og Njarðvík. Grindvíkingar eru hinsvegar sem fyrr í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KR en þessi tvö lið eru hreinlega að stinga af. Sóknarleikurinn var í öngvegi í fyrri hálfleik í gærkveldi. Heimamenn byrjuðu betur, gestirnir náðu að klóra í bakkann um miðbik hálfleiksins en heimaliðið kláraði síðan betur. Það sama gerðist í seinni hálfleiknum og þá fór meiri breidd í Grindavíkurliðinu að segja til sín.
Hlynur Bæringsson er greinilega búinn að ná sér af meiðslunum sem hafa hrjáð hann um tíma og átti frábæran leik. Hlynur skoraði 15 stig, tók hvorki fleiri né færri en 21 frákast, gaf níu stoðsendingar og varði sex skot frá Grindvíkingum. Sigurður Þorvaldsson átti einnig mjög góðan leik og hitti vel sem fyrr. Hann skoraði 26 stig, Jón Ólafur Jónsson 17, Slobodan Subasic 8, Egill Egilsson 6, Atli Rafn Hreinsson 4, Arnór Hermundsson 3 og Gunnlaugur Smárason 2.
Hjá Grindavík var Arnar Freyr Jónsson stigahæstur með 22 stig og þeir Brenton Birmingham og Páll Axel Vilbergsson 18 hvor.