03. desember. 2008 12:03
Undanfarnar vikur hafa fulltrúar Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og Borgarbyggðar rætt saman um möguleika á nánu samstarfi um almenningssamgöngur milli staðanna og tengingu við leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu með samnýtingu við ferðir sem þegar eru milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið ber vinnuheitið Strætó Vesturlands. “Staðan er sú að vilji er til að tengja þessi sveitarfélög saman með tíðum ferðum milli Akraness og Borgarness. Verkefnið felur hins vegar í sér mikinn kostnað og hefur hann verið að hækka og spurning hvort Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit leggi á þessum tímapunkti í þann kostnað sem þessu fylgir,” segir Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri í Borgarbyggð.
Hann segir að um yrði að ræða tíðar ferðir milli staðanna og þannig mjög öflugar samgöngur fyrir íbúa á sunnanverðu Vesturlandi. “Það er jafnvel verið að skoða upp í sjö ferðir á dag úr Borgarnesi og á Akranes. Þaðan yrði svo nýttur sami vagn og tengir Skagamenn í dag við Strætó höfuðborgarsvæðisins. Páll segir að sérleyfi Reykjavík – Borgarnes falli út um næstu áramót og því sé brýnt að fá niðurstöðu í málið sem fyrst, helst í þessari viku.