05. desember. 2008 08:08
Nemendur Varmalandsskóla og krakkar á leikskólanum á Varmalandi í Borgarfirði tóku sig til og mynduðu svokallaða vinakeðju nú í byrjun aðventu. Keðjan náði allt frá skólanum og upp á hamarinn fyrir ofan hann. Kyndlar voru látnir berast eftir keðjunni upp á topp og loguðu ljósin þar fram eftir degi.
Björg Ólafsdóttir deildarstjóri á yngri stigi í skólanum segir að nemendur bæði skólans og leikskólans hafi unnið með hugtakið virðingu í byrjun vetrar. “Nú tekur við vinna með vináttu. Tími aðventunnar er einmitt sé tími sem er góður í að hugleiða kærleik og vináttu. Það var því kærkomið tækifæri að nota þennan fyrsta virka dag aðventunnar til þess að búa til svokallaða vinakeðju úr nemendum skólanna. Þannig leiddust nemendur upp á fjall, einn úr eldri deild og annar úr yngri eða leikskólanum.” Björg segir að kyndlarnir hafi samtals verið 13 talsins, jafnmargir jólasveinunum þótt hugsunin hafi verið önnur.
“Einn var fyrir hvern bekk, einn fyrir kennara skólans, einn fyrir leikskólann og einn fyrir annað starfsfólk skólans. Þetta tókst í alla staði mjög vel þar sem bæði börn og fullorðnir skemmtu sér. Eftir uppgönguna var ekki síður skemmtilegt að renna sér á rassinum niður og hafa gaman af.”