05. desember. 2008 10:05
 |
Óli Palli verður með fyrsta þáttinn í Útvarpi Akraness |
“Það er orðinn fastur liður hjá mér að vera í Útvarpi Akraness,” segir útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson eða Óli Palli á Rás 2. Hann er einn þeirra sem kemur að skipulagningu á útsendingum Útvarps Akraness 95,0 sem hefjast í dag klukkan 13.
Í dagskránni kennir ýmissa grasa. “Ég hlakka til dæmis mikið til að heyra viðtal Gísla Einarssonar við Ingibjörgu Pálmadóttur og Harald Sturlaugsson. Svo er ómissandi Rokkþing á föstudagskvöld með Tomma Rúnari og Jóni Allans.”
Óli Palli skorar á Akurnesinga að hlusta á útvarpið. “Þetta er bara einu sinni á ári og mikið er í þetta lagt. Margt af því sem er á dagskrá er bæði stórmerkilegt og skemmtilegt. Ég vil sérstaklega hvetja verslunareigendur til að hafa kveikt á útvarpinu. Slökkvið á Rás 2 og hlustið á Útvarp Akraness þessa einu helgi, ég fyrirgef fólki það,” segir Óli Palli glettinn.
Sent verður út frá kaffihúsinu Skrúðgarðinum. “Það er frábært að vera þar. Við ætlum meðal annars að senda út tónleika en það hefur aldrei verið gert áður. Um er að ræða tónleika Ljótu hálfvitanna á laugardagskvöld. Allir sem eru heima hlusta náttúrulega en við viljum líka vera með fullt hús á staðnum!”
Dagskrá Útvarps Akraness um helgina má sjá með því að smella hér>