05. desember. 2008 01:06
Gistinætur á hótelum hér á landi í október voru 103.700 en voru 108.800 í sama mánuði árið 2007, sem er því tæplega 5% samdráttur milli ára. Á Höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum úr 83.100 í 76.400 eða um 8%. Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum úr 6.400 í 5.100 eða um 20% og á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum um 1%, úr 7.400 í 7.300. Hagstofan tekur fram að á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða hafa bæst við í gagnagrunn gistináttatalningar gögn frá tveimur hótelum fyrir októbermánuð. Gistinóttum fjölgaði hinsvegar umtalsvert á Austurlandi og Suðurlandi í október miðað við október 2007. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Austurlandi um tæp 35%, eða úr 2.100 í 2.900. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 9.800 í 12.100 milli ára eða um 24%.