08. desember. 2008 09:14
 |
Stormþursarnir. Ljósm. Guðni Hannesson. |
Tuttugu manna hópur drengja á Akranesi hefur tekið upp á því að stofna ruðningslið og æfir nú af kappi í Akraneshöllinni. Liðið hefur fengið nafnið Stormþursarnir. Búningarnir voru sérpantaðir frá Bandaríkjunum og komu í hús fyrir skömmu. Mennirnir á bakvið uppátækið eru Jóhann Aðalsteinn Árnason og Bergur Líndal Guðnason. “Ég var búinn að fylgjast með ruðningi í fleiri ár í sjónvarpinu og velti því fyrir mér af hverju íþróttin hefði aldrei fest sig í sessi á Íslandi,” segir Jóhann Aðalsteinn, betur þekktur sem Alli. “Ruðningur er vinsæl íþrótt víða í Evrópu og er stór í nágrannalöndum okkar, til dæmis Bretlandi og Danmörku. Fyrir nokkru fann ég svo síðu á netinu þar sem kom fram að ruðningur hefði verið spilaður á Íslandi árin ´87-´90. Þá voru þrjú lið á landinu. Ég varð himinlifandi, talaði við félaga mína og hafði samband við manninn á bakvið síðuna. Hann hefur hjálpað okkur mikið, pantaði til dæmis búningana fyrir okkur frá Bandaríkjunum.”
Alli segist hafa komist að því að upphaf ruðningsiðkunar hafi verið á svipuðum tíma annars staðar í Evrópu. Áhuginn hér á landi lognaðist út af þegar Stöð 2 hætti að sýna leikina. “Stöð 2 hóf göngu sína hér ´87 og byrjaði að sýna frá leikjunum. Þegar þeir hættu því dó ruðningsíþróttin hér en hélt áfram að vaxa í Evrópu.”
Stormþursarnir byrjuðu að æfa um mitt sumar en færðu sig inn í Akraneshöllina í haust. “Það er svo stutt síðan að við fengum búningana að við erum enn að venjast þeim. Á æfingum spilum við mest æfingaleiki, skiptum í tvö lið og spilum. Seinna förum við út í æfingar til að þjálfa sérstakar stöður og þess háttar,” segir Alli. Enn sem komið er munu Stormþursarnir vera eina starfandi ruðningsliðið á landinu. “Það er reyndar kominn vísir að liði í bænum en þeir eru ekki búnir að kaupa búninga eða þess háttar.”
En hvaðan kemur nafn liðsins? “Við vorum búnir að pæla í ýmsum nöfnum og skrifuðum mörg fyndin á blað, Naglbítarnir og fleira. Þetta átti að vera svona harkalegt og karlmennskulegt,” segir Alli og hlær. “Einhverjir svakalegir Stormþursar.” Hann segir að áhugasamir megi gjarnan bætast í hópinn. “Það væri bara gaman og jákvætt ef fleiri hafa áhuga á að vera með.”
Alli segir misjafnt hversu vel liðsmennirnir séu að sér um íþróttina. “Sumir höfðu ekki einu sinni séð leik en langaði að prófa að spila.” En geta þeir eitthvað? “Ja, við erum allavega bestir á Íslandi,” segir Alli og brosir.