10. desember. 2008 11:04
Kvennalið Snæfells hefur á síðustu dögum leikið tvo leiki í Iceland Express deildinni, gegn efstu liðunum í deildinni, og tapað þeim báðum. Snæfell saknar nú bandaríska leikmannsins Detru Asley sem hefur haldið heim á leið. Óskaði hún eftir að losna frá samningi af persónulegum ástæðum. Snæfell fær nýja bandaríska eftir áramótin, sú heitir Kristen Green. Snæfell tók á móti efsta liði deildarinnar Haukum sl. laugardag og tapaði 56:81 eftir að hafa verið undir í hálfleik 26:42. Stigahæstar í Snæfellsliðinu voru Berglind Gunnarsdóttir með 14 stig og Hrafnhildur S. Sævarsdóttir með níu stig.
Þar á undan sótti Snæfell Keflavíkurstúlkur heim og töpuðu 80:59. Snæfell og Fjölnir eru í tveimur neðstu sætum Icelandic Express deildarinnar, því 7.-8. með tvö stig hvort félag.
Snæfell fær svo Keflavíkurstúlkur í heimsókn í kvöld, miðvikudagskvöld, í Subway Bikarnum. Þetta er í fjórða skiptið sem þessi lið mætast í vetur, en þau hafa leikið bæði heima og heiman í deildinni og mættust einnig í fyrirtækja bikarnum í Keflavík. Suðurnesjastúlkur hafa unnið alla leikina til þessa.