10. desember. 2008 12:01
Breytingar urðu á körfuboltaliði Skallagríms í gær, þriðjudag, þegar bandarískur bakvörður bættist í hópinn. Kemur hann í staðinn fyrir króatíska leikmanninn Miroslav Andonov sem stóð ekki undir væntingum og verður því sendur til síns heima. Skallagrímsmenn verða því áfram með tvo útlendinga í sínum herbúðum, en Igor Beljanski er spilandi þjálfari með liðinu.
Skallagrímur er enn án stiga í úrvalsdeildinni, en í Subway bikarnum, Bikarkeppni KKÍ, gengur betur. Þar vann liðið sinn fyrsta sigur í 32-liða úrslitum fyrir skömmu á Laugdælum á Laugarvatni. Skallagrímsmenn fá svo Þórsara í heimsókn í 16-liða úrslitunum annað kvöld, fimmtudagskvöld. Væntanlega verður nýi bandaríski bakvörðurinn tilbúinn í þann leik. Hann heitir Landon Quick og er 23 ára, lék með High Point háskólanum og útskrifaðist þaðan á síðasta ári. Quick skoraði 5,5 stig að meðaltali í leik og gaf 3,1 stoðsendingu.