11. desember. 2008 12:05
Slökkvilið Borgarbyggðar og lögreglan í Borgarfirði og Dölum hafa tekið höndum saman um fræðslu í grunnskólum Borgarbyggðar og Laugargerðisskóla nú í desember. Átakið hófst í vikunni og er því beint að unglingastigi skólanna. Það eru þau Laufey Gísladóttir lögreglumaður og Haukur Valsson eldvarnaeftirlitsmaður sem sjá um að fræða unglingana um þá slysa- og eldhættu sem felst í því að taka í sundur og fikta með flugelda. Fræðslan felst í því að farið er yfir lög og reglur sem gilda um þennan varning og þá eld- og slysahættu sem slíku fikti fylgir. Einnig sýna þau myndir og viðtöl við þá sem örkumlast hafa af þessum völdum.