11. desember. 2008 10:29
Veðurstofa Íslands býst við stormi um landið vestanvert undir kvöld. Það verður suðvestanátt, yfirleitt á bilinu 8-15 m/s í dag og skúrir eða él um landið sunnan- og vestanvert, annars bjart að mestu framan af degi. Síðar í dag er spáð ört vaxandi suðaustanátt fyrst hér á Vesturlandi. Víða 18-25 m/s og rigning eða slydda í kvöld um landið vestanvert og gera má ráð fyrir hvössu veðri af fjöllum. Í suðaustanátt getur t.d. orðið afar hvasst af Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og á svæðum á norðanverðu Snæfellsnesi. Hægara veður og úrkomuminna verður í öðrum landshlutum. Á morgun er spáð sunnan 8-15 m/sek og éljagangi, en mun hægara veðri og þurru norðaustantil. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar í nótt og víða vægt frost á morgun. Í veðurhorfum næstu daga er gert ráð fyrir umhleypingasömu veðri, það verður úrkomu að vænta í öllum landshlutum og fremur kalt verður í veðri.